Niðurstöður skoðanakönnunar um skipulagsáform í Norður-Mjódd

Klasi hefur tekið saman niðurstöður könnunar um hugmyndir og sýn þátttakenda á skipulagsáform fyrir Norður-Mjódd. Markmiðið með könnuninni var að fá innsýn í væntingar og óskir íbúa og annarra hagsmunaaðila varðandi uppbyggingu svæðisins. Svörin og ábendingar sem bárust geta nýst þróunaraðilum við áframhaldandi skipulagsvinnu.

Tilkynnt var um könnunina á Facebook og könnunin var aðgengileg í gegnum vefinn nordurmjodd.is en síðan er á vegum Klasa. Notast var við Google forms og svör voru ekki persónugreinanleg. Könnunin er ekki hluti af formlegu athugasemdarferli, en slíkt ferli hefst þegar Reykjavíkurborg auglýsir tillögu að deiliskipulagi sem nú er í vinnslu fyrir Norður-Mjódd.

Í fyrri hluta könnunarinnar fékk almenningur tækifæri til að tjá skoðun sína á þörf fyrir ólík íbúðarform, aðstöðu og þjónustu í Norður-Mjódd með því að merkja við hvort þeir teldu mikilvægt að hafa, gott að hafa eða ekki þörf á að hafa það sem spurt var um. Í seinni hluta voru opnar spurningar. Fjöldi þátttakenda var 85 og svörum var safnað á tímabilinu 21. apríl til 7. júní árið 2025.

Niðurstöður

Niðurstöður fyrri hluta könnunarinnar bentu til þess að mikill áhugi væri á bílastæðum (96%) og hleðslustöðvum fyrir bíla (96%) en einnig fyrir almenningssamgöngum (88%). Þá voru gróður, græn svæði, almenningsgarðar ásamt bekkjum og hvíldarstöðum talin mikilvæg af yfir 95% svarenda. Mestur var áhuginn á 3ja herbergja íbúðum (92%) en tæp 57% töldu ekki þörf á félagslegu húsnæði á uppbyggingarsvæðinu. Sú þjónusta sem vakti mestan áhuga var leikskóli, matvöruverslun, veitingastaður/kaffihús og heilbrigðisþjónusta en minnstur var áhuginn á sameiginlegri eldunaraðstöðu.

Í fyrstu fimm spurningunum var spurt: Hvað af eftirtöldu finnst þér mikilvægt að hafa í Norður-Mjódd? Vinsamlegast merkið við einn valkost fyrir hvert atriði.

Opnar spurningar vörpuðu ljósi á hugmyndir íbúa varðandi almenningsrými og græn svæði, samgöngur, hverfið og staðaranda þess auk og annarra þátta. Spurt var „Ertu með ábendingar eða hugmyndir sem gætu aukið lífsgæði þeirra sem búa eða dvelja á svæðinu? Svarið með eigin orðum því sem koma skal á framfæri.“ Hér eftir fer samantekt á algengustu ábendingum sem bárust undir hverjum lið.

Græn, sólrík og skjólgóð svæði skipta miklu máli

Opin spurning varðandi almenningsrými og græn svæði leiddi í ljós að fjölmargir þátttakendur töldu að sólrík græn svæði, leiksvæði, skjól og góður aðbúnaður í almenningsrýmum væru lykilatriði. Ítrekuð var þörfin fyrir tré, fjölbreyttan gróður og að hugað væri að hæð húsa og skuggavarpi frá þeim. Einnig komu fram hugmyndir um æfingatæki og hjóla- og gönguleiðir undir þessum lið.

Áhersla á bílastæði en einnig fjölbreyttar samgöngur

Meirihluti þátttakenda lagði áherslu á að tryggja næg bílastæði fyrir íbúa og gesti í svari við opinni spurningu um samgöngur. Jafnframt var bent á mikilvægi þess að huga vel að öruggum og góðum göngu- og hjólastígum í átt að Mjódd/ÍR svæði og að Elliðaárdal ásamt eflingu almenningssamgangna. Nokkrir notuðu tækifærið til að benda á hversu vel búið svæðið væri varðandi verslun og þjónustu í göngufæri.

Góð staðsetning og mikil tækifæri

Svarendur lýstu ánægju með staðsetningu Norður-Mjóddar, nálægð við Elliðaárdal og góðar samgönguleiðir þegar spurt var um hverfið og staðaranda, kosti svæðisins og tækifæri til að efla hverfið. Margir töldu svæðið bjóða upp á mikil tækifæri til að skapa fjölbreytt og gott borgarumhverfi, bæði fyrir íbúa og fyrirtæki. Þá var lögð áhersla á að sköpuð yrðu sólrík svæði, gætt yrði að hljóðvist og að byggingahæð yrði takmörkuð til að forðast skuggavarp. Aðrir nefndu að tækifæri fælist í að efla mætti ímynd hverfisins.

Önnur atriði sem nefnd voru

Í opinni lokaspurningu þar sem boðið var upp á athugasemdir varðandi annað, t.d. vistfræði svæðisins, flóðahættu og vatnssöfnun komu fram ólíkar skoðanir varðandi íbúðaform. Jafnframt voru ítrekaðar áherslur úr fyrri svörum um varfærni í skipulagi og huga yrði að skjóli og birtuskilyrðum.

 

Klasi þakkar öllum sem tóku þátt í könnuninni. Ábendingar og hugmyndir úr henni verða nýttar í áframhaldandi vinnu við að móta Norður-Mjódd sem aðlaðandi, gróskumikið og vel tengt borgarhverfi.

Next
Next

Birtugæði umhverfis Norður-Mjódd